Laxveiði hefur gengið vel í Norðurá það sem af er sumri. Hefur verið landað yfir 386 löxum sem er svipað og í meðalári að sögn veiðivarðar. Mikið af fiski er í ánni og er hann farinn að ganga upp á dal. Góður hiti er í árvatninu og ágætt vatnsmagn.
Töluvert af smálaxi hefur gengið upp ána og er þetta með stærstu göngum sem menn muna eftir og er mikil ánægja meðal veiðimanna við Norðurá en stórstreymt hefur verið í vikunni og eru horfur góðar á mikilli veiði. Á Flóðatangasvæði hefur töluvert veiðst af silungi. Mætt hefur verið fyrir allar stengur hingað til og nú hefur hafist veiði á efra svæði Norðurár II, en lax er farinn að sjást í Poka við Króksfoss. Allar horfur eru á að 2020 verði frábært veiðisumar.