Vorið er komið við Norðurá 2018.

Skrifað 29/04/2018

Vatnsbúskapur:

Flestum veiðimönnum er hugleikið á vordögum hvernig vatnsbúskapur verður á komandi sumri. Hvort vatn er mikið eða lítið getur skipt sköpum við veiðarnar. Oft hefur því heyrst fleygt að Norðurá sé einstaklega viðkvæm, hún sé iðulega vatnslítil og erfið í ágústmánuði. Hið rétta er að allflestar ár á Vestur- og Norðvesturlandi glíma við svipaðan eða sama vanda, þar komi langir þurrviðrakaflar. Norðurá sker sig engan vegin úr í þeim efnum.

Nú eru horfur hins vegar mjög góðar og snjóalög meiri en til margra ára. Öll gil og drög eru full af snjó og þetta er snjór allar götur síðan í nóvember. Það er mjög mikilvægt að fá snjó svona snemma þannig að snjórinn hafi frosið vel, fengið á sig rigningu og frosið aftur, bætt á nýjum snjó og rignt og frosið og þannig myndast hjarn sem heldur langt fram á sumar. Við Norðurármenn horfum því björtum augum til sumarsins og höfum fulla trú á að þessi snjór dugi okkur vel fram eftir öllu sumri.

Veiðihús:

Í vetur hefur verið unnið að endanlegum frágangi á veiðihúsinu við Norðurá að Rjúpnaási, en eins og flestir veiðimenn vita var þar tekin í notkun ný og glæsileg bygging síðastliðið sumar. Nýja húsið var byggt á met hraða og eins og eðlilegt var voru ýmsir endar sem þurfti að hnýta og ganga frá núna í vetur.

Í nýrri gistiálmu eru 14 stór og björt herbergi sem öll snúa út að ánni, hvert með sér baðherbergi. Falleg sauna með sturtum og snyrtingu, vöðlugeymsla með snyrtingu fyrir veiðimenn, einnig móttökueldhús og matsalur fyrir starfsfólk.

Á sama tíma var reist ný og glæsileg móttaka og bar með fallegu útsýni yfir ánna og niður í Myrkhyl. Setustofa í eldri húshluta var öll endurnýjuð og innréttuð með nýjum húsgögnum.

Almenn ánægja var meðal gesta í fyrra sumar með allan aðbúnað. Það verður því enn betra veiðihús sem heilsar gestum okkar á sumri komanda.

Veiðihorfur:

Bjartsýni ríkir hjá veiðimönnum fyrir komandi sumar. Eftir tvö góð vor, þar sem seiðin virðast hafa skilað sér vel til sjávar, hafa menn fulla trú á að í hönd fari gott veiðisumar þar sem bæði stórlax svo og smálax mæti í ríku mæli. Auðvitað er alltaf erfitt að ráða í náttúruna, og stundum hafa menn skotið yfir markið, en nú virðist sem margt styðji góðar heimtur. Við gerum okkur vonir um öflugar göngur af stórlaxi í júní og sterkum smálaxagöngum í kjölfarið.


Bókanir


SALA VEIÐILEYFA:

Rafn Valur Alfreðsson gefur allar upplýsingar varðandi bókanir og sölu veiðileyfa í Norðurá í síma 8246460 eða í gegnum netfangið sala@nordura.is

Norðurá


Veiðifélag Norðurár
Sími: +354 859 3959 nordura@nordura.is

Veiðihúsið Rjúpnaási sími: 435 0058

Veiðivörður Norðurár sími: 860 0333.

Staðsetning


Norðurá er í Borgarfirði, um 110 km fjarlægð frá Reykjavík, ef miðað er við staðsetningu veiðihússins á Rjúpnaási.

Á netinu