Fjallið

Fjallið

Norðurá I Norðurá II Fjallið Munaðarnes Flóðatangi Kort af Norðurá Veiðivísir Veiðvörður

Fjallið 11 Við veiðar í Norðurá er veiðimaðurinn staddur í einskonar einskismannslandi, ekkert heyrist nema niður árinnar er í tímans rás hefur mótað landið og borið fram efnið er myndað hefur eyrarnar er sjá má víða við ána. Ekkert truflar nema fugl eða suð í flugu og ein og ein ær er heldur til fjalla í von um kjarnmikil grös. Augað nemur þann silfraða er stekkur fimlega í Króksfossi, sýn sem fáum gleymist. Þar renna saman í eitt, veiðimaðurinn, umhverfið og laxinn. Norðurá er dragá og vatnsmagnið getur verið mjög breytilegt. Fiskurinn færir sig því til í hyljunum eftir vatnsstöðu og hefur áin því margar ólíkar ásjónur. Heillandi laxveiðiá í fögru umhverfi.

Efsti hluti Norðurár, Fjallið, hefur allt til að bera fyrir veiðimenn sem þyrstir í ævintýri í fallegri en um leið ögrandi náttúru. Bæði er hægt að rölta um grónar grundir niðri á flatlendinu og reyna á sig fram til heiða í því dæmigerða landslagi er þar gefur, klungur og klettum. Áin er heillandi þar sem hún streymir fram ýmist lygn eða stríð, og skiptast á strengir og breiður, fossar og flúðir. Veiðivonin er rík, ekki síst er líða fer á sumarið og er haustar skemma ekki hinir fjölbreyttu haustlitir náttúrunnar fyrir.

Á efsta hluta veiðisvæðisins uppi á heiðinni, frá ármótum Norðurár og Hvassár rennur áin um grófar malareyrar en fellur síðan í gljúfrum með fjölmörgum og breytilegum veiðistöðum. Þarna er mikil náttúrufegurð og auðvelt fyrir veiðimenn að gleyma sér umvafðir hamraveggjum sem lesa má úr ýmsar kynjamyndir, álfaborgir við hvert fótmál því löngum hafa Íslendingar trúað því að náttúran geymi fleira en augað sér.

Er neðar kemur í gljúfrunum er komið að Króksfossi fallegum og gjöfulum veiðistað. Fyrr á tíð komst laxinn ekki upp fyrir fossinn. En í hamfara leysingum fyrir ríflega fimmtíu árum, sprengdi áin af sér ís ofan við fossinn og braut hann stykki úr berginu á fossbrúninni, nægjanlegt fyrir laxinn til að komast upp. Er voraði sást að nú var Norðurá veiðanleg allt upp að upptökum sínum.

Kaflinn frá fossinum og niður þar sem gljúfrunum sleppir er líklega fallegasti hluti Norðurár II með fjölda veiðistaða hverjum öðrum skemmtilegri. Þetta svæði verður hverjum veiðimanni ógleymanlegt og minningarnar ylja er haust og vetur sækja að.

Á neðsta hluta Norðurár II rennur áin yfir malareyrar og við gróin tún með auðvelt aðgengi fyrir flesta veiðimenn. Á leið sinni niður gljúfrinn hefur áin stöðugt bætt við sig vatni og eru því veiðistaðir á neðsta hluta svæðisins stærri og meiri en þeir sem efstir eru. Þetta gerir umhverfið áhugaverðara og fjölbreyttara.

Bókanir


SALA VEIÐILEYFA:

Rafn Valur Alfreðsson gefur allar upplýsingar varðandi bókanir og sölu veiðileyfa í Norðurá í síma 8246460 eða í gegnum netfangið sala@nordura.is

Norðurá


Veiðifélag Norðurár
Sími: +354 859 3959 nordura@nordura.is

Veiðihúsið Rjúpnaási sími: 435 0058

Veiðivörður Norðurár sími: 860 0333.

Staðsetning


Norðurá er í Borgarfirði, um 110 km fjarlægð frá Reykjavík, ef miðað er við staðsetningu veiðihússins á Rjúpnaási.

Á netinu