Veiðihúsið Rjúpnaási
Veiðihúsið Rjúpnaási Veiðihúsið HáreksstöðumVEIÐHÚSIÐ RJÚPNAÁSI
Rjúpnaás-Norðurá I. Þar er aðal veiðihúsið við ána, staðsett á samnefndri hæð. Í húsinu er full þjónusta eins og gerist á hótelum, fæði, sængurföt og handklæði. Búið er um rúmin og skipt um handklæði daglega og séð til þess að vel fari um þá veiðimenn sem sækja Norðurá heim.
Byggð hefur verið ný svefnálma við húsið og tókst byggingin með ágætum. Inngangur rúmar nýja móttöku, Straum, þar sem áin blasir við um útsýnisglugga sem nær frá gólfi til lofts. Straum prýða stólar með snúnings fæti svo hægt er að njóta útsýnis og ræða við veiðifélaga á víxl. Gólfefni og barborð eru úr náttúrulegu basalti. Barinn og innréttingar eru úr lerki. Í húsinu eru 14 rúmgóð svefnherbergi, tvö rúm eru í hverju þeirra, ásamt setbekk og rúmgóðum skápum í inngangi gengt snyrtingu með sturtu. Innréttingar eru allar hannaðar af GO Form studio. Hvert herbergi fékk nafn ákveðins veiðistaðar og prýðir mynd frá staðnum vegg yfir rúmgafli. Öll hafa þau útsýni yfir Norðurá. Herbergin eru aðgengileg fyrir fatlaða.
Gufubað hefur verið endurnýjað, þar eru rúmgóðir bekkir með óbeinni lýsingu, framan við saunu eru tvær sturtur og snyrting, útgengt er á stétt undir þaki, einnig má ganga niður að útsýnisbekk frá gufunni.
Hluti gömlu gömlu stofunnar hefur verið endurnýjaður í sama stíl og hún var í og hefur fengið heitið Lygna, lofti í Streng hefur verið lyft og hitalögn lögð í gólf. Arinn er í stofu. Gluggi með útsýni að Laxfossi og Baulu í fjarska er við enda stofunnar.
Borðstofa rúmar alla gesti hússins í sameiginlegan málsverð. Borðstofan hefur fengið ný borð og stóla og innréttingu á langvegg. Hljóðvist hefur verið bætt með viðar listum í lofti.
MATURINN Í VEIÐIHÚSINU
Vinsamlegast látið vita fyrirfram ef um matarofnæmi er að ræða.
AÐSTAÐA Í VEIÐIHÚSINU
Á hlaðinu eru tvö megin hús. Í veiðihúsinu sjálfu er ný móttaka sem einnig þjónar sem bar að kvöldlagi, eldhúsið, borð- og setustofa, gesta snyrting auk 14 tvíbýlis svefnherbergja fyrir veiðimenn. Á neðri hæð nýju álmunnar er vöðlugeymsla veiðimanna með WC inn af, undir móttöku. Í hinum enda neðri hæðar er ný sauna með tveimur sturtum og WC, þaðan er gengt út og um stiga upp á efri hæð utanhúss, einnig er hægt að ganga að útsýnisbekk með skjólvegg. Í öðru húsi, sem nefnt hefur verið Brekkubær, er aðalgistiaðstaða starfsfólks. Þar eru einnig setustofa starfsfólks og vöðlugeymsla þeirra.
Fjöldi góðra gjafa hafa borist Veiðifélagi Norðurár í tilefni vígslu nýja húshlutans einkum málverk, myndir og bækur sem prýða nú húsið.
Í setustofunni er gluggi sem aldrei verða sett gluggatjöld fyrir, en út um hann má sjá eitt fegursta útsýni við veiðiá á Íslandi. Laxfoss, Grábrókarhraun, Hraunsnefnsöxl og drottingu Borgarfjarðar, Bauluna.
Þar er einnig arinn sem veiðimönnum þykir notalegt að sitja við, sérstaklega er líður að hausti. Og að sjálfsögðu eru á boðstólum guðaveigar af ýmsum gerðum.